föstudagur, febrúar 23, 2007

Fæddur er frelsari vor...

...því frúin er orðin léttari-í lund.


En strákurinn okkar fæddist þann 22. febrúar klukkan 00.52. Igga fór að finna fyrir verkjum kl.6 um morguninn þann 21. og var tilkynning send út á heimsbyggðina. Olga var ræst af gömlum vana og boðuð í Skógarás til að redda okkur. Hún kom og fór með Ásbjörn á leikskólann því við héldum að þetta væri að bresta á. Við fórum hins vegar ekki upp á deild fyrr en klukkan 15.30 því verkirnir urðu ekkert verri þótt liði á daginn. Á deildinni var Igga sett í mónitor og þar var allt með kyrrum kjörum (eða svoleiðis). Við fórum út aftur og fengum okkur vel að borða og fórum svo aftur uppeftir og beint inn í Hreiðrið, en þar var okkur boðið að eiga barnið.

Þegar við komum í Hreiðrið var klukkan hálf sex og enn svipaðir verki og í upphafi! Hjúkkurnar voru að velta fyrir sér hvort við værum að plata þær og voru að hugsa um að senda okkur bara heim aftur því ekkert bólaði á barninu. Það var svo ekki fyrr en klukkan hálf tólf að ákveðið var að læknirinn kíkti á málið. Hann ákvað strax að stinga á belginn og koma þessu af stað, alveg óþarfi að láta konuna þjást!


Klukkutíma síðar var barnið fætt! Fæðingin fór fram í baðinu í Hreiðrinu. Þvílíkur munur að geta farið í baðið því það léttir töluvert á verkjunum í fæðingunni. Eins og Igga sagði þegar hún var komin í baðið og fann muninn „andskotinn að maður hafi ekki fattað þetta fyrr..."


Fjólublár drengur kom í ljós upp úr vatninu og lét í sér heyra strax og hann kom upp á yfirborðið. Hann var fljótur að taka eðlilegan lit (eða svo til) og braggast vel.


3910 gr. og 51 sm voru málin.

1 Comments:

At 24 febrúar, 2007 15:59, Anonymous Nafnlaus said...

híhí, já svolítið seint að fatta baðið núna - en hún hlýtur að breiða boðskapinn út til vinkvennanna sem eru ekki alveg hættar. Hjartanlega til lukku með prinsinn

 

Skrifa ummæli

<< Home