þriðjudagur, mars 20, 2007

Ný síða


Við höfum ákveðið að prufa að fá okkur nýja síðu, slóðin er 123.is/skogaras
Þar er hægt að skoða myndaalbúm og margt voða flott.

Igga

mánudagur, mars 19, 2007

Börn okkar systkyna og eitt til.



Efstur er Benedikt, næsta röð frá vinstri: Ásbjörn, Kristbjörg Ásta,Sölvi, Margrét Edda, Aron Elís og Marteinnn Aldar.
Frá vinstri:Elmar Logi, Brynhildur, Guðmundur Hafsteinn og svo er systursonur Þrándar, Daníel.

Já á sunnudagskvöldið hittumst við systkynin heima hjá Rakel og borðuðum saman. Við Skógarásarnir fórum um kl. 5 til þeirra og náðu krakkarnir okkar að leika sér við Ljósalandsliðið aðeins áður en Dalsgerðisliðið kom úr kaffiboðinu sem þeim var boði í. Það var svo líf og fjör eftir að allir voru komnir í hús, minnti mig svolítið á íþróttakennsluna hérna áður fyrr, fékk svona „flassback" úr íþróttahúsinu.
Svo var liðið myndað, svona í tilefni af því að allir voru á svæðinu. Þetta verður svo endurtekið í hvert skipti sem við hittumst með öll börnin. Það verður gaman að eiga þessar myndir og bera þær saman þegar við/þau eru orðin gömul.

föstudagur, mars 16, 2007

Helgin rétt að byrja...

Það er búið að vera gestasamt í kotinu undanfana daga. Hjúkk, og við sem héldum að fólk væri búið að gleyma okkur... við búum í Reykjavík!!!
Heiða og Kalli komu í hádegiskaffi til okkar, langt síðan þau komu, enda búsett á Hólmavík og ekki á hverjum degi í bænum. Þau komu fimm saman, voru með sína fylgifiska með.
Friðgeir bróðir og Inga komu svo í seinna kaffið. Þau voru með allt sitt lið, fimm að tölu. Ennþá lengra síðan þau komu til okkar, enda búa þau á Akureyri og alls ekki alltaf í bænum. Brynhildur var rosalega hissa þegar hún kom heim og sá allt þetta fólk heima hjá sér. Var frekar feimin til að byrja með en svo fór það fljótt af henni.

Við erum núna mikið að horfa á fólk sem kemur til okkar(sjáum alla koma út um eldhúsgluggann), sérstaklega fólk með stóra fjölskyldu, því við erum að velta því fyrir okkur hvernig við sjálf lítum út þegar við komum í heimsókn til ykkar. Við erum nefnilega orðin 6 talsins!!!
Ég ímynda mér að við lítum út eins og í Dressmann auglýsingunni, göngum þétt saman skellihlæjandi þannig að það líti út fyrir að atriðið sé sýnt hægt (stuttir fætur hafa þessi áhrif á sýn fólks á göngulagi):-).
Svo er það bara hvernig þið sjáið okkur???

Á laugardagskvöldinu verða Friðgeir, Inga og fjölskylda í mat hjá okkur og Igga ætlar að harka á leigubílnum aðeins um kvöldmatarleytið(skutla Olgu og Hafþóri á árshátíð).

fimmtudagur, mars 15, 2007

Haglél sem segir sex...

Í gær skruppum við í búð. Igga hljóp inn á meðan við feðgar biðum í hlýjunni í bílnum. Á þessum stutta tíma kom þetta líka rosalega haglél. Það dundi á bílnum og ég sá þar sem fólk forðaði sér inn í búð á harða hlaupum (mjög fyndið).
Þegar við komum heim sáum við hvernig hagl hafði fallið í Skógarásnum. Á svölunum hjá okkur voru þessar svakalegu kúlur og voru þær töluvert stærri en þær sem fólkið var að hlaupa undan við búðina nokkru fyrr.
Ég fór út á svalir og tók stærstu kúluna sem ég sá, fór með hana inn og mældi með reglustiku. Kúlan hafði aðeins bráðnað í lófanum á mér en var samt rúmlega 10 mm að þvermáli (1 sm)!
Ég ákvað svo að fara með reglustikuna út og mæla þetta betur og þetta var afraksturinn.
Ég held að þetta séu stærstu högl sem ég man eftir að hafa séð (fyrir utan haglið sem var í myndinni „Day after tomorrow").

mánudagur, mars 12, 2007

Hvað á barnið að heita?


_ _ _ _ _ _ _ _ / _ _ _ _ _

Þá er komið nafn á drenginn. Eftir miklar vangaveltur og púsluspil þá fannst nafn sem hæfir þessum unga manni. Við erum nokkuð ánægð með það og ákváðum að hafa eitt aukanafn með en það er aðeins styttra.
Nafnið kemur ekki strax á netið en þeir sem eru forvitnir geta komið í heimsókn til okkar og fengið að vita. Þá er einnig hægt að hringja í okkur en þá verður aðeins fyrra nafnið gefið upp.:-)

sunnudagur, mars 11, 2007

Rós eða prjónn í hnappagatið???

Ég get nú ekki sagt að þessi heiðursviðurkenning sem ég fékk í dag hafi nú verið einsdæmi. Þetta var sem sagt viðurkenning á því að ég hafi starfað í þágu félagsins í ákveðinn tíma, og var það sem sagt silfurmerki ÍR sem ég fékk. Það voru 50 aðrir sem fengu sömu viðurkenningu hjá félaginu sem er flott þar sem ÍR er eitt stærsta íþróttafélag borgarinnar.
Það eru hins vegar aðrar viðurkenningar sem ég sækist eftir núna og eru þær veittar innan veggja heimilisins. Þær getur verið auðvelt að fá frá degi til dags en oft á tíðum einnig mjög erfitt. Heimilisviðurkenningar nælir maður hvorki í jakkalaf eða bindi eða hengir um háls eða upp á vegg. Þessar viðurkenningar ber maður með sér hvert á land sem er án þess að þær verði manni íþyngjandi (rosalega er maður orðinn skáldlegur).
Þessi mynd var tekin af okkur þegar ég kom heim eftir að hafa tekið við ÍR prjóninum. Þarna er ég með þær viðukenningar sem ég þarf!

Gamli minn



Sæl öll

Þá er komið að mér að blogga, Sverrir er reyndar skemtilegri penni finst mér.
Við Mía (Binna) og lilli erum ein heima núna, við ætluðum með Sverri en það er bara svo vont veður að ég vildi ekki taka litla út. Sverrir er á 100 ára afmæli ÍR. Hann fékk bréf í vikuni um að þar yrðu veittar ýmsar heiðursviðurkenningar, og hann yrði á meðal þeirra sem ÍR vildi heiðra. Það fyrsta sem ég hugsaði þarf maður ekki að vera eldri til að fá heiðursviðurkenningu? En svo fattaði ég að hann er orðin helv.. gamall :)
Það verður gaman að vita hvað fór fram þarna þegar hann kemur heim. Ég læt vita þá.

En eins og ég sgði þá er ég ein með yngstu börnin, Brynhildur reynir að príla uppí vagninn hjá lilla og var að enda við að reyna troða poppkexi uppí hann. Ég verð bara að standa vörð hjá vagninum á meðan lilli er vakandi.

Einhverra hluta vegna er ég að drepast í öxlini og herðunum, alveg uppí háls. Ég hélt að þetta væri vöðvabólga en þetta er búið að vera svona í 2 vikur, og ég vakna upp á nóttuni með hausverk og er farin að taka verkjalyf, eittthvað sem ég geri aldrei. Hlálp!

Jæja Brynhildur er farin að henda sér í gólfið hérna, ég skrifa meira næst.

Igga

föstudagur, mars 09, 2007

Hott, hott á hesti...

Í dag var blíðskaparveður, stillt og þokkalega heitt. Við fórum seinnipartinn til ömmu Þuru og Péturs í kaffi og tókum þann litla með. Pétur(sem er að verða níræður) hafði farið með Bjarna bróður ömmu út á Granda til að kaupa fisk og komu þeir stuttu eftir að við komum.

Eftir kaffið fórum við heim en á leiðinni sáum við hesta í Víðidalnum og komum þar við. Fólk var þar að nýta góða veðrið og var í óða önn við að ríða út. Við stoppuðum hjá einum reiðskólanum og kíktum á hrossin. Brynhildur var svo spennt að hún skrækti af kæti og minnstu mátti muna að hún fældi hestana. Henni var svo boðið að setjast á bak en hún þáði það EKKI mjög pent.

Þegar við vorum svo að fara var mikið grátið, eða þannig, Binna var ekkert hress að þurfa að fara þegar hún var rétt að komast í gírinn.

fimmtudagur, mars 08, 2007

Skautaferð í Laugardalinn


Í gær fórum við á skauta. Þ.e. fjórir fóru á skauta, mamman og lillinn fóru ekki með. Þannig var að foreldrafélagið í bekknum hans Benna skipulagði ferðina sem endaði með pizzum fyrir alla, systkyni og foreldrar voru með.
Ásbjörn og Benni skautuðu allan tíman og ég hélt á Brynhildi meira og minna á svellinu en ég var að sjáfsögðu á skautunum mínum, kemur sér vel að hafa fengið skauta í afmælisgjöf fyrir 15 árum!!
Þetta var príðilega heppnuð ferð og allir skemmtu sér vel. Fyrst var kveikt ljós á svellinu en svo var slökkt og þá var diskókúla í loftinu og litaljós, svaka fjör.
Við fórum svo heim klukkan 19, vorum búin að vera síðan klukkan 17.

Sverrir

miðvikudagur, mars 07, 2007

Fyrsta baðið.



Þá var komið að því að baða. Eftir hádegislúrinn var maðurinn háttaður og settur í bala sem var fullur af volgu vatni. Okkar maður hefur ekki komist í nálægð við vatn síðan hann fæddist en eins og allir muna þá fæddist hann í baði.

Hann var ekkert eins hrifinn af þessu vatni eins og mætti halda, þó hann sé fiskur í húð og hár og lét okkur vita af því allan tímann.

Baðferðin var nú stutt og hann komst fljótt upp úr þessum bölvaða bala og inn í rúm þar sem pabbi hans þurrkaði honum. Hann var nú ekkert ánægður með það heldur og lét í sér heyra. Allt í einu þagnaði hann þar sem hann var vafinn inn í handklæðið á rúminu, svo fann pabbinn buxnaskálmina sína vogna aðeins og komst þá að því af hverju drengurinn þagnaði. Hann hafð sem sagt náð að pissa út úr handklæðinu og beint á pabba sinn og niður á gólf, alger snilld!

Svo tók þetta nú allt enda og hann jafnaði sig fljótt efir að hann fattaði að það var stutt í matinn(drykkinn). Þvílíkur léttir að þetta sé allt af staðið!

Kveðja úr Skógarási.

mánudagur, mars 05, 2007

Vigtun...


Í dag kom ljósmóðirin í heimsókn og viktaði litla manninn okkar. Hann er enn að þyngjast og vó núna 4.210 gr. Þess má geta að rétt fyrir mælingu náði hann að létta töluvert á sér, bæði meig og skeit á síðustu stundu. Hann hefði sennilega náð í fjögur og þrjú ef hann hefði haldið í sér :-)
Það gengur annars allt vel á heimilinu, allt hreint og fínt og fólki er alveg óhætt að kíkja í heimsókn. Igga getur bakað á milli gjafa og kökurnar hennar eru bara ágætasta brauð og slær bakraísbakkelsinu ekki slöku við.

Pest er verst...

Þá er sunnudagurinn liðinn og þvílíkur léttir. Ég var sem sagt með ælupest í einn dag og það var sunnudagurinn. Ég vaknaði með Brynhildi um morguninn um kl. 8 og var þá eitthvað slappur. Igga og litli minn sváfu áfram. Svo byjaði vesenið kl.9 yfir klósettskálinni! Uuuuuuðð... Brynhildur vissi náttúrulega ekki hvað var að gerast en fylgdist vel með þessum raunum, hún stóð við hliðina á pabba sínum og horfði agndofin á.
Ég lá svo eins og skotinn allan daginn og var ekki skárri fyrr en seint um kvöldið. Núna í morgun var ég svo orðinn fínn aftur. Ég fór með Brynhildi til dagmömmunnar og þar sagði dagmamman mér að hún hefði legið alla helgina með pest!
Þá bíður maður spenntur eftir því hver verði næstur í röðinni af okkur???

Kveðja,
Sverrir

laugardagur, mars 03, 2007

Laugardagsmorgun, á fætur ég fer...



Núna í morgun vaknaði Brynhildur klukkan 7, eða rétt rúmlega. Við fórum framúr á meðan Igga og lilli minn héldu áfram að hvíla sig. Morgunmaturinn étinn eins og á virkum degi og svo fór Brynhildur að dunda sér við leik en pabbinn fékk að halla sér í sófann yfir barnaefninu!

Svo byrjaði EM í frjálsum í sjónvarpinu kl. 10 og þá límdist maður við skjáinn. Það er æðislegt að vera í fríi þegar svona mót eru sýnd beint í sjónvarpinu, maður er bara heima og horfir á ALLA útsendinguna.

Fljótlega komum mæðginin á fætur en þau eru á hvíldartímabili eins og er í lífinu, eins og gefur að skilja!

Kv
Sverrir

fimmtudagur, mars 01, 2007

Opera sem virkar

Í dag skiptum við um netbrowser. Við erum búin að prófa að hafa nýja Internet Explorer og nýja Firefox browserinn og þeir hafa verið fínir, margt sniðugt í nýju uppfærslunum.
Igga er hins vegar að nota WebCT í skólanum hjá sér(fjarnámið) og hefur það ekki gengið vel. Það einfaldlega virkar ekki á IExpl.7 og einhver vandræði voru að koma upp með Firefoxinn.
Ég var að reyna að finna út hvað gæti verið að þegar ég datt niður á nýjan browser sem heitir Opera! Þessi er alveg sambærilegur og hinir, með alla nýju fídusana og virkar með allt sem við notum hann í þ.e. WebCTið hennar Iggu er í lagi og engin vandamál með það.
Ef einhver vill prófa þá er bara að fara á opera.com og kíkja á þetta.
Kv
Sverrir