miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Er þessi drengur líkur mér?


Átti þessa mynd til af mér þegar ég var á unga aldri. Það er alltaf verið að velta fyrir sér hverjum sonurinn er líkur og því ekki að senda eina mynd af pabbanum á netið og sjá hvort fólk sjái einhvern svip með okkur???
Hingað til hafa ættingjar Iggu séð alla hennar þætti í Brynhildi og líka í honum Bangsa mínum og svo öfugt með mitt fólk (þó ég þurfi nú stundum að kalla eftir stuðningi eða pína fólkið með mér í lið).
Nei, nei, þetta er sko engin keppni og ég hef verið mjög ánægður með að dóttirin líkist móður sinni, tel það skárri kost í stöðunni. En drengurinn má alveg líkjast mér. :-)
Hvað finnst ykkur?
Kv. Sverrir

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Auga fyrir auga...

Þessa dagana er helst spurt um hvort búið sé að ná mynd af stráknum nýfædda með opin augu, og hvort hún fari ekki beint á bloggið um leið. Það er nú stutt saga á bak við það.

Þannig var að drengurinn fékk einhverja sýkingu í hægra augað og hefur hann ekki getað opnað það að neinu marki frá því að hann fæddist. Þetta lýsir sér þannig að þegar hann vaknar eru það miklar stírur í auganu á honum að það er bókstaflega límt aftur! Límda augað hefur þá verkun á hitt augað að það opnast voðalega lítið. Við erum þó búin að fá meðal við þessu og það er strax farið að virka.

Við höfum þó séð hann með opin augu og er jafnvel hægt að segja að það sé dökkur augnlitur á honum þessum. Hvort það verða brún augu eða eitthvað annað er ekki gott að sjá á þessari stundu.

Loksins náðist að smella af einni mynd af drengnum þegar hann vaknaði og var að skoða sig um á meðan við skiptum á honum. Það má glöggt sjá að hann er feginn að losna við það sem hann var búinn að setja í pakkann.
Já, svo var það 5 daga skoðunin í dag. Hann var viktaður og reyndist hann hafa þyngst örlítið, var orðinn 4 kg. slétt, var 3.910 gr. við fæðingu. Nokkuð gott hjá okkar manni sem drekkur mjólk eins og honum sé borgað fyrir það.
Kveðja frá hinum fjóru fræknu og tveim í fríi.

mánudagur, febrúar 26, 2007

26. febrúar, sólskin og kalt.

Í dag var tekin blóðprufa úr hælnum á drengnum okkar. Hjúkkan sem kemur á hverjum degi mætti með lítinn hníf og stakk í hælinn á honum og kreysti nokkra dropa á blað og verður rannsakað hvort hann sé með einhvern skjaldkirtilssjúkdóm. Besta mál en okkar manni fannst það algjör óþarfi að láta meiða sig svona rétt á fyrstu dögum lífsins.


Strákarnir eru farnir frá okkur þessa vikuna og því svolítið tómlegt í kotinu, tveir fullorðnir og tvö lítil börn. Brynhildur er ekki vön þessu þ.e. að vera stóra systir og elsta barnið á heimilinu, aðra hverja viku. En þetta venst og hún er voðalega góð við strákinn, stundum einum of góð.

Í dag kom Olga í heimsókn, færandi hendi, var með alls konar dót í krukkum og piparkökur í dós. Brynhildur fékk sér náttúrulega nokkrar og gaf öllum með sér. Hún gaf pabba köku, mömmu eina og Olgu líka. Svo skellti hún sér inn í stofu þar sem litli bróðir hennar lá í vagninum og gaf honum tvær kökur. Hún náði ekki alveg upp í vagninn þannig að hún henti þeim bara uppí til hans þannig að hann gæti örugglega fengið sér bita. Pabbinn mátti svo sópa mylsnurnar úr hárinu á drengnum og tína brotin upp úr vagninum.

Brynhildur sá þegar amma Signý fór út á svalir og hreinsaði til þar um helgina. Hún skellti sér út á svalir, var búin að búa sig til fyrir þetta verk, fór í stígvél og náði í fægiskófluna og setti á sig hjálminn! Ég var ekki vitni að þessum orginal þrifum hjá tengdó en það hefði verið fyndið ef amman hefði dressað sig upp svona þegar svalirnar voru teknar í gegn:-)
Brynhildi fannst hins vegar frekar kalt úti, eins og hún sýnir svona berlega á myndinni („þetta er kalt" látbragðið) þannig að hún fór bara inn fljótlega, enda búið að hreinsa svalirnar svona líka frábærlega nokkru áður!

Á morgun förum við svo með prinsinn í læknisskoðun á spítalann.

Kveðja frá Skógarási.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Laugardagur

Jæja, þá eru tvær nætur liðnar með þann litla í heimahúsi.

Hann er rétt að skapa sér þá venju að sofa á daginn og vaka á nóttunni!
Ég er með bauga niðrá kinnar, það er eins og Sverrir hafi fengið nóg af mér og gefið mér högg öðru megin allavega gera þau hin mikið grín af glóðurauganu mínu. En ljósan segir að ég þurfi bara að hvíla mig meira (hversu mikið þarf það að vera?), ég ligg meira og minna í rúminu og geri ekki neitt. Brjóstagjöfin gengur vel, drengurinn er mathákur eins og við hin.

Brynhildur er að venjast nýju dúkkuni sinni hún er voðalega góð og vil mikið fá að koma við hann. Strákarnir eru eitthvað ósáttir við hvorn annann, þeir eru monntnir með litla bróður en það er MJÖG stuttur þráðurinn. Allavega var ekki hægt að sofa í morgun útaf látum í þeim bræðrum (grátur og gnístan tanna). Mamma og pabbi fóru með þá í keilu og ég vona að þeir fái smá útrás við það.

Takk fyrir allar kveðjurnar, þið eruð velkomin í heimsókn þegar þið viljið.
Nú snúum við okkur aftur að bikarkeppnini

Igga

föstudagur, febrúar 23, 2007

Nokkrar myndir







Fæddur er frelsari vor...

...því frúin er orðin léttari-í lund.


En strákurinn okkar fæddist þann 22. febrúar klukkan 00.52. Igga fór að finna fyrir verkjum kl.6 um morguninn þann 21. og var tilkynning send út á heimsbyggðina. Olga var ræst af gömlum vana og boðuð í Skógarás til að redda okkur. Hún kom og fór með Ásbjörn á leikskólann því við héldum að þetta væri að bresta á. Við fórum hins vegar ekki upp á deild fyrr en klukkan 15.30 því verkirnir urðu ekkert verri þótt liði á daginn. Á deildinni var Igga sett í mónitor og þar var allt með kyrrum kjörum (eða svoleiðis). Við fórum út aftur og fengum okkur vel að borða og fórum svo aftur uppeftir og beint inn í Hreiðrið, en þar var okkur boðið að eiga barnið.

Þegar við komum í Hreiðrið var klukkan hálf sex og enn svipaðir verki og í upphafi! Hjúkkurnar voru að velta fyrir sér hvort við værum að plata þær og voru að hugsa um að senda okkur bara heim aftur því ekkert bólaði á barninu. Það var svo ekki fyrr en klukkan hálf tólf að ákveðið var að læknirinn kíkti á málið. Hann ákvað strax að stinga á belginn og koma þessu af stað, alveg óþarfi að láta konuna þjást!


Klukkutíma síðar var barnið fætt! Fæðingin fór fram í baðinu í Hreiðrinu. Þvílíkur munur að geta farið í baðið því það léttir töluvert á verkjunum í fæðingunni. Eins og Igga sagði þegar hún var komin í baðið og fann muninn „andskotinn að maður hafi ekki fattað þetta fyrr..."


Fjólublár drengur kom í ljós upp úr vatninu og lét í sér heyra strax og hann kom upp á yfirborðið. Hann var fljótur að taka eðlilegan lit (eða svo til) og braggast vel.


3910 gr. og 51 sm voru málin.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Blóm og kransar afþakkaðir...

Já, við svona sérstök tilefni, eins og 19. feb er, þá þarf stundum að senda út fréttatilkynningar. Þar sem komið er að mínum ómerkilega afmælisdegi þá er meiningin að halda Bolludaginn háttíðlegan í staðin, af því að hann er miklu skemmtilegri! Ég verð hins vegar heima eftir miðjan daginn, verð kominn heim úr vinnu, sprækur sem lækur.

Svo er náttúrulega meiningin að eignast afkvæmi seinnipartinn líka, geri rá fyrir því um klukkan 19.00, þannig að ef einhverjir ætla að koma í heimsókn til mín (á þessu merka degi, bolludegi) þá geri ég ráð fyrir því að það þyrfti að vera á milli 16-19!

Igga er sem sagt að springa, ég nuddaði á henni hendurnar núna í kvöld (18.feb) þannig að þetta ætti að vera búið að kreistast út á morgun. Bjúgurinn sér til þess að skapa nægan þrýsting og þar sem ég er búinn að nudda hann úr höndunum þá ætti hann að vera kominn að bumbunni.

Þá er það bara stóri höfuðverkurinn..... Hvað á barnið að heita?????????

Kv.
Sverrir

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Bjúg-tí-fúl, ekki satt?



Jæja þá er komið að mér að blogga á þetta Skógarása svæði!!!

Eins og komið er fram þá er hann „Bangsi" minn ekki enn full gerður, það þarf aðeins að fínisera línurnar betur á honum áður en honum er skilað út í þessa veröld. Þetta er allt í lagi ennþá. En ekki misskilja mig út af þessari fyrirsögn sem er á greininni hún segir EKKERT til um hvernig ástandið er á heimilinu. Að vísu er smá bjúgur að herja á líkamann á konunni eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hvað varðar þessa morgun fýlu sem frúin var að ýja að í síðustu grein þá get ég varla sagt að hún sé tíu sinnum meiri en vanalega (þó ástandið sé eins og það er). Það er kannski tvisvar sinnum meira þegar yngsta afsprengið tekur sig til með morgunfýlu. Guði sé lof fyrir morgunvaktir, þar byrja ég kl. 07.00 í vinnunni og er farinn úr húsi kl. 06.30, á meðan aðrir meðlimir fjölskyldunnar eru enn að slefa í koddann:-)

Nei, án gríns þá er frúin enn þá jafn „bjútífull" og hún var þegar ég sá hana fyrst þó hún reyni að telja manni trú um annað. Við bíðum þolinmóð eftir að eitthvað gerist og ég er marg búin að segja frúnni að þessi megrunarkúr sé bestur, við köllum hann Febrúar-kúrinn.

Sverrir

Ég er enþá með bumbubúa

Ég bíð og bíð. En ekkert virðist ætla að gerast. Í dag er ég búin að liggja og horfa á eina mynd. Ég er að reyna að vera róleg og ekki gera mikið. Það er víst sagt að það virki (að slaka á).
Olga kom færandi hendi með nokkrar dvd sem ég er að vera búin með. Og svo er ég að reyna að vera dugleg að læra, sem gegnur bara vel held ég.

Ég var að lesa í á einhverjum vef að núna eru öllum börnum innan 12 ára bannað að koma inná kvennadeildina á lansanum. Þetta þýðir að börnin fá ekki að heimsækja systkini sín á sjúkrahúsið. Þetta er útaf RS-vírus, sem er víst farin að verða svoldið skæður. Sumar konur sem ég hef verið að tala við ætla ekki að leyfa annara manna börnum að koma í heimsókn heim fyrstu dagana. Ég veit ekki hvað það stoppar, ég er náttúrulega með börn í skóla, leikskóla og dagmömmu. Ætli mín börn smiti ekki alveg eins og annarra.

Við Brynhildur sváfum aðeins lengur en vanalega í morgun, og hún var ekki í góðu skapi þegar hún vaknaði. Ég held að hún hafi fengið þessa dásamlegu morgunúríllu frá mér. Allavega erum við ekkert sérlega skemtilegar ný vaknaðar.

Ásbjörn fór til Hólmavíkur á föstudaginn og kom með pabba í gær. Hann ætlar að eiga heima á Hólmavík segir hann, en ekki með okkur hinum, bara einn!
Þeir bræður eru núna hjá pabba sínum, en koma aftur á mánudag. Benni kemur samt alltaf eftir skóla og er hérna hjá mér þangað til pabbi hans sækir hann um 4-5 leytið.

Í dag er planið að versla og slaka svo á (láta Sverri elda eitthvað gott).


Igga

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Pabbi að fermast



Ég má til með að sýna ykkur fermingamynd af pabba.

Eru þau ekki svolítið lík?


Ég verð að segja það að þessi börn eru svolítið lík. Ef myndirnar væru allar í jafn góðum gæðum sæist það betur. Tek það fram að Finna frænka er líka með, en hún er með mig í miðjuni. Ég kann ekki að snúa myndunum, þannig að Binna er á hlið.